miðvikudagur, febrúar 08, 2006

Í deiglunni

Síðustu 10 daga er ég búin að vera með hnút í maganum. Verkjar í hjartað þegar ég horfi á fréttir og er með nettan kvíða fyrir morgundeginum. Veit ekki hvað þetta mál fyllir fréttatímann mikið á Íslandi en það er vart ekki talað um annað hérna í Danmörku, enda Danmörk miðjan í þessu máli.

Islam vs. Danmörk.

Já þetta er næstum óskiljanlegt fyrir okkur Vesturlandsbúa. "Hvað er málið!!" hugsa flestir, "þetta eru bara teikningar!" Það sem margir ekki vita það að samkvæmt Kóraninum er stranglega bannað að teikna, eða gera einhverja mynd/hugmynd af Múhammeð. "SO!!" hugsa flestir enn.
Já so! sagði ég líka og segi kannski enn. En viðbrögðin gagnvart þessu hafa verið miklu meiri og harðari en nokkur gerði sér grein fyrir eða hugarlund um og þetta er komið svo langt fram yfir þessar teikningar og boycott á dönskum vörum.
Ef við tökum t.d. þá atburði sem gerðust í Sýrlandi þar sem sendiráð Danmerkur og Noregs voru brennd niður. Þá er talið að þessi múgæsingur hafi aðallega myndast vegna sms-a sem gengu á milli fólks þar sem það var haldið fram að Danir væru að safnast saman á Rådhuspladsen til að brenna Kóraninn. Sem ég og þú vitum að átti sér engan veginn stað. Þetta er ekki eina dæmið um rangar staðreyndir sem hafa verið að ganga á milli fólks.
Svo er hægt að spyrja hvort JyllandsPosten hefðu átt að birta þessar myndir. Kannski ekki, til virðinga við múslima og þeirra trú. En svo ríkir jú málfrelsi og af hverju þá ekki að birta þessar myndir.
Ég skil báðar hliðar á málinu og það er ofsalega fín lína þarna á milli. En held samt að viðbrögðin séu komin langt umfram normið. Og ekki eru t.d. sms og rangur fréttaflutningur að hjálpa til. Fæ soldið á tilfinninguna að þessar teikningar séu afsökun fyrir útrás á einhverri reiði og frústreringu gagnvart hinum vestræna heimi. Við höfum jú alltaf sitið og litið niður á ýmis gildi og hefðir hjá múslimum (t.d. slæður) og fundist okkar gildi alltaf vera satt og rétt.
Það sem mér finnst nú kaldhæðnislegast við þetta allt saman er að við erum að tala um Danmörk. Land sem hefur verið mjög sveigjanlegt og tolerant gagnvart múslimum miðað við flest önnur vestræn ríki. Sem dæmi um það þá bjóða leikskólar í Kaupmannahöfn aðeins upp á Halal slátrað kjöt og margir skólar bjóða ekki upp á svínakjöt. Svo er hægt að ræða það hvort það sé rétt þróun.
Versta við þetta allt saman að það var lítill hópur af dönskum Imam múslimum (múslimahópur í DK, soldið öfgakenndur) sem fóru til miðausturlanda með þessar myndir og mötuðu fjölmiðla og hina ýmsu hópa með þessum upplýsingum og krydduðu þetta víst vel. Fremstur í flokki var hann Abu Laban. Skil eiginlega ekki hvað þessi maður er að gera hérna í DK ennþá. Flestir (ef ekki allir) terroristar sem hafa tengst Danmörku á einhvern hátt hafa allir verið persónulegir vinir þessa manns. Svo hefur hann t.d. í þessu máli öllu verið að segja eitt hérna í Danmörku og annað við arabíska fjölmiðla. Kannski er bara gott að hafa hann nálægt til að fylgjast með honum.
Svo er hægt að spyrja. Eru þessi viðbrögð sem við sjáum í fréttum að sýna rétta mynd á skoðunum og viðbrögðum múslima overall? Eða er þetta aðeins einhver minnihluta hópur af ofsatrúarmönnum? Ég væri alla vega ekki til í að hópur af ofsatrúuðum kristnum mönnum væri að tala fyrir mína hönd í ýmsum málum, eins og t.d. kynlífi og fóstureyðingum, eða bara í flestum málum.
En til að ljúka þessu röfli hjá mér þá fannst mér nokkuð gott sem ein múslimakona sagði í fréttunum hérna í fyrradag. Hún sagðist skilja vel að fólk væri sárt og ósatt yfir þessum myndum enda stæði það skýrt í Kóraninum að þetta væri bannað. En það stæði líka skýrt í Kóraninum að fólk ætti að vera með friðsamleg mótmæli og mætti ekki drepa. Og hún væri orðin þreytt á þessum double moral hjá öfgatrúuðum múslimum.

Engin ummæli: