fimmtudagur, desember 30, 2004

2004

Árið byrjaði erfiðlega fyrir mig. Ég var ein heima allan janúar mánuð að rembast við lærdóm. Var ég á þessum tíma að glíma við mikið þunglyndi og kvíða og var búin að vera að glíma við það í allt of langan tíma. Á sama tíma ákvað ég að ég yrði að taka mér pásu frá skólanum og vinna í að koma mér upp úr þunglyndinu. Ég ákvað að drífa mig til Ítalíu og vinna á bóndabæjum. Fannst mér þetta góð leið til að breyta um umhverfi og takast á við sjálfa mig með sjálfri mér og engum öðrum. Man að margir héldu að ástæða ferðar minnar væri út af vandamálum milli mín og Eika, en það var langt í frá.
Febrúar og mars liðu og ég vann mikið á þeim tíma og var að undirbúa mig fyrir ferðina. Dvaldi ég í tæpa 2 mánuði á Ítalíu á tveim bóndabæjum. Var þessi reynsla mjög spennandi en á sama tíma mjög erfið. En ég kom heim endurnærð og kom í ljós að þetta var góður startpallur fyrir mig.
Sumarið byrjaði eða byrjaði ekki þar sem þetta var versta sumar í Danmörku í 35 ár eða eitthvað álíka. Ég kíkti heim í júní og ágúst sem var ljúft eins og alltaf og svo fengum við Eiki fullt af gestum í heimsókn. Roskilde var mjög eftirminnileg.
Svo í enda júlí gerðist eitthvað. Ég fékk nóg. Hætti að drekka, hætti að borða nammi ásamt öllu öðru með sykri. Borðaði hollt og fullt af grænmeti. Enda rúm 20 kíló farin síðan í byrjun árs.
Haustið byrjaði og skólinn lagðist vel í mig. Þunglyndi og kvíði löngu horfin. Í október fjölgaði svo á heimilinu og Alísa kisuskvísa flutti inn og hefur lífgað upp á heimilið. Algjör karakter.
Svo 9. nóvember pissaði ég á prik. Var það gert með hálfum hug þar sem okkur grunaði ekki að það væri möguleiki á tveimur línum... en tvær línur voru það. Í sjokki hjólaði ég út í apótek og keypti tvö próf í viðbót og jújú tvær línur á þeim líka. Hmm.
Ja hérna hér. Við erum að verða foreldrar... erfinginn á leiðinni. Verð að viðurkenna það var erfitt að halda þessu leyndu, sérstaklega fyrir mömmu og pabba. En það var þess virði.
Botnlanginn stríddi mér aðeins fyrir jólin. Verð að viðurkenna að ég hefði eflaust harkað þetta af mér í einhvern tíma ef ég hefði ekki verið ólétt. Vorum soldið smeik að þetta væri tengt óléttunni. En sem betur fer var það ekki málið. En við tóku áhyggjur varðandi svæfingu og lyfjagjöf. En allt fór vel enda fékk ég lágmark af verkjalyfjum og engin bólgueyðandi... sem kannski gerði batann erfiðari en gengur og gerist en ekkert til að kvarta yfir enda stóð Eiki sig eins og hetja í hjúkrunarhlutverkinu.
Við Eiki áttum mjög hugguleg jól ásamt kisu litlu. Borðuðum góðan mat og fengum flottar gjafir. Hápunkturinn var þó að hringja í mömmur og pabbar og segja þeim að þau væru að verða ömmur og afar. Og systur að þær væru að verða frænkur.
Í heild var árið 2004 gott ár. Og eitthvað segir mér að árið 2005 verði enn betra.
Love

þriðjudagur, desember 28, 2004

It´s official...



Við Eiki erum að verða foreldrar í júlí :o) :o)

föstudagur, desember 24, 2004

Gleðileg jól!

öll sömul og vonandi hafið þið það sem allra best um jólin.

Svona til gamans má geta að það er allt hvítt hjá okkur hérna í Køben... og snjóar enn og svona ekta jólasnjór, risastórar flygsur sem svífa hægt og rólega niður.

miðvikudagur, desember 22, 2004

Jólahygge

Jæja prófin búin og allir pakkar komnir í hús, ekkert annað eftir en hygge

sunnudagur, desember 19, 2004

ahh

Það var eitthvað svo ljúft að vakna í morgun. Tók mér alveg klukkutíma til að velta mér um og opna smám saman augun. Svo var kisa í svo miklu kúri stuði líka. Greyið Eiki vaknaði við vekjaraklukkuna í morgun og var rokinn af stað. Duglegur drengurinn.
Annars er það bara lærdómur í dag. Er ekkert allt of bjartsýn með þetta enda tók það góðan tíma að koma sér í stellingar eftir hörmungar síðustu viku. Djö að þurfa að lenda í þessu svona rétt fyrir prófin. En ég geri mitt besta og það verður ekki gert betur... nenni bara ekki að hafa þessi próf á bakinu.
Held samt að ég skreppi í eitt bíó eða svo í dag. Heiða og Angeles eru að fara á Sky Captain and the World of Tomorrow og mig langar með. Ástæðan fyrir að þessi mynd varð fyrir valinu er einungis út af Jude Law og ekkert annað. En ég ætla að sjá til... fer eftir duglegheitum þangað til.
ciao

mánudagur, desember 13, 2004

Ja hérna hér

Svona geta hlutirnir gerst hratt
Var að koma heim af spítalanum einum botnlanga léttari!
Byrjaði að fá verki á miðvikudaginn
Lögð inn á föstudaginn
Aðgerð á laugardaginn
Og svo var að koma heim núna áðan í dag mánudag... nokkuð aumingjaleg verð ég að segja
Á að taka því rólega næstu vikuna... sem er einmitt svona sniðugt þegar ég á að fara í 2 próf eftir helgi
Vil koma því á framfæri að Eiki er æði.. mange tak
Yfir og út

fimmtudagur, desember 09, 2004

Fasteignir

Er í hálfgerðu sjokki eftir að horfa á þátt hérna í DK. Komst að því að flott hús (týpískt danskur sveitabær) hérna úti með yfir 20.000 fm landi af skógi og meira, kostar jafnmikið og lítil tveggja herbergja íbúð inni í Køben og þriggja herbergja íbúð í Breiðholtinu.
Freistandi skal ég segja ykkur. Freistandi

sunnudagur, desember 05, 2004

Alisa




Stundum má maður vera montinn

Arna litla systir var að vinna til gullverðlauna í Karate, nánar tiltekið í Kumite. Til fróðleiks er Kumite sá hluti af Karate þar sem maður er að berjast við andstæðinga... þannig það er eins gott að passa sig á henni! Til hamingju skvísa.


Hérna er hún með bronsið fyrir hóp-kata í nóvember

Alísa kisuskvísa er orðin rosa klár í "fetch". Hún á nefnilega litla tuskubelju sem henni finnst mjög spennandi og það skemmtilegasta sem hún gerir þessa dagana er að koma með hana til okkar og svo eigum við að kasta henni. Hún hleypur svo og kemur með hana aftur og svona koll af kolli. Nokkuð merkilegt sko.

Síðast en ekki síst má nefna hann Guðjón vin okkar sem var að vinna til gullverðlauna í The European Awards for Creative excellence fyrir auglýsinguna sem hann leikstýrði fyrir Umferðarstofu. Þetta er víst í fyrsta skipti sem íslensk auglýsing vinnur. Er þetta frábær árangur og til lukku til lukku til lukku.

miðvikudagur, desember 01, 2004

Djö

Er í vinnunni. Var ákveðið að ég færi fyrr að sofa í þetta skiptið sem er frekar glatað stundum því maður er kannski ekki orðinn það þreyttur, sem einmitt átti við mig núna. Þannig af 3,5 fór fyrsti hálftíminn í það að reyna að sofna. Svo var ég með vinnugemsann til að vekja mig. Byrjaði á því að stilla klukkuna 2:10 sem var hálftíma of snemma (misreiknaði aðeins) og fattaði það bara þegar ég var nýstaðin upp og ákvað því að sofa þennan extra hálftíma sem ég átti inni, en náttúrulega sofnaði ekki. Klukkan 2:40 fór ég svo á fætur, nokkuð hress. Smurði mér brauðsneið og skellti mér yfir í svínahúsið... nei þá var klukkan bara 1:45, sem sagt vinnugemsinn ennþá á sumartíma og klukkutíma of fljótur. Djö. Hljóp aftur yfir og ætlaði sko að nýta mér þennan tæpa klukkutíma sem ég átti inni en sofnaði auðvitað ekkert. Þannig að af 3,5 tímum sem ég átti í svefn svaf ég í 1,5. Svona getur þetta verið ósanngjarnt stundum. Annars hress.