mánudagur, maí 24, 2004

Keldan

Ætli maður skelli sér ekki bara á Kelduna. Miðar komnir í hús og meira að segja Eiki "ofurútihátíðartöffari" ætlar að skella sér líka. Held að Gummi Jóh hafi náð að sannfæra hann í lokin. Djö... verður slefað yfir Pharrel í N.E.R.D.... þeir gerast ekki mikið flottari. Annars fullt af perfomerum sem mig langar að sjá og ætla ég að vera á fremsta bekk þegar m.a. Ben Harper stígur á svið.

Eitt innlegg. Pasta fyrir hunda og ketti. Það er í alvörunni hægt á Ítalíu að kaupa spes pasta sem er framleitt sem dýrafóður. Þegar ég sá þetta matreitt gat ég ekki annað en hugsað "Aðeins á Ítalíu".
Og svo sá ég geitung/vespu sem var jafnstór og litli puttinn á mér og heitir því sæta nafni HorseKillers. Og getur sem sagt drepið hest með einni stungu... og þar af leiðandi mann. Og það versta var að við fundum svoleiðis bú rétt hjá húsinu sem ég var í í Piemonte. Og þá vitið þið hvert ég fór ekki það sem eftir var. Oj.

miðvikudagur, maí 19, 2004

Heim

Jæja þá er maður mættur aftur til Köben. Úff þetta er búið að vera meira ævintýrið.

Verð að segja að ég var bara fegin að fara frá hestabúgarðinum í Toscana. Fín reynsla og kynntist þarna 2 frábærum kanadískum stelpum en hel%”&#! eigandi staðarins var frekar óskemmtilegur. Átti það til að standa yfir manni og öskra og meina þá öskra yfir minnsta tilefni, henda í manni lyfjabox af því maður dirfðist biðja um meira þar sem það væri búið og einu sinni varaði hann krökkunum sínum við að borða of mikið því þá myndu þau enda eins og ég, þar sem við sátum öll saman við matverðarborðið. Eins og ég segi svona frekar óskemmtilegur og skap ekki í jafnvægi. Við höldum að hann sé á kóki. Skapsveiflur, skrýtinn til augnanna og tala ekki um egó. Það sem mér þótti þó verst var lack of respect. Hundar og hestar héldu mér gangandi. Var æðislegt að moka skít og knúsa hvolpa. Náði að safna góðu siggi í lófana og fastann skít á puttana... Eiki getur staðfest það... hann var ekki sáttur að ég væri með meira sigg en hann;)

Hitti svo Eika bleika í Milano í lok apríl mánaðar, sem var mmmmm og við skelltum okkur til Venezia (Feneyja ef einhver er í vafa). Það var æðislegt. Mæli eindregið með þessarri borg en mæli einnig með að fara ekki á sumarmánuðum, þar sem það var nóg af fólki þegar við vorum í lok apríl. Við fórum reyndar ekki á gondól. Og sjáum ekkert eftir því. Við vorum lengi að melta þetta. “Getur maður farið til Feneyja án þess að fara á gondól?” Eftir miklar vangaveltur ákvaðum við ekki að tíma því þar sem það kostar 80-140 evrur (7000-12000 kr., eftir lengd ferðar og staðsetningu gondóla) fyrir max 40 mínutna siglingu. Æi fólk var að sigla og ekkert alltaf eitt á ferð, kannski bátur fyrir framan með öðru pari og stór hluti ferðarinnar var undir brýr þar sem stóðu aðrir túristar og voru kannski að taka myndir og svona. Sjarminn var aðeins minni en ég var búin að ímynda mér. Sáum margt skemmtilegt, m.a. feneyska unglinga á rúntinum að hlusta á pop í botni nema í stað bíls voru þau á litlum mótorbát.
Við brunuðum svo aftur til Milano og Eiki skellti sér aftur í bardagann í Köben. Ég gisti eina nótt í Milano en svaf lítið sem ekkert þar sem AC Milan höfðu tryggt sér meistaratitilinn í boltanum um daginn og ég var svo heppin að hótelið mitt var við eina af aðalgötum bæjarins og aðal sportið var að keyra um hana í halarófu og flauta og öskra.... alla nóttina.

Þreytt og pirruð tók ég lestina til Biella í norðurhluta Piemonte (norður Ítalía, rétt fyrir neðan Sviss). Á lestarstöðinni stóð maður í skrýtnum regnsamfesting með 2 hjálma og kynnti sig sem Michele, sem sagt bóndinn sem ég var að fara að vinna hjá. Fyrir utan stóð svo vespa, ekta ítölsk vespa, 15 ára gömul. Ég horfi á hann, yfir á mig og yfir á farangurinn minn... í grenjandi rigningu og hugsaði að maðurinn hljóti að vera að grínast. Eftir miklar pælingar og vesen gátum við lagt af stað. Hálf á hljólinu og hálf í lausu lofti með aðra hönd á öxlinni hans og hina á farangrinum í úrhelli í 20 mínútur brunuðum við heim að bænum og alla leiðinni hugsaði ég... þetta er æði!
Þá er það bærinn. Þetta er geitabær, með 22 geitur, 4 kiðlinga, 9 kisur, 4 kettlinga, 2 hunda og 1 kú sem heldur að hún sé geit.
Komst fljótt að því að það væru aðeins aðrar áherslur á þessum bæ en á þeim í Toscana. Þau í Toscana voru mjög material, drullurík og lítil umhyggja fyrir dýrum (sá hann beita aðeins of miklu ofbeldi fyrir minn smekk). Þau voru algjör andstaða.
Michele er svona hippatýpa. Gamall öfga vinstri og rebel sem hefur mildst aðeins með árunum. Klæðist bara gömlum fötum sem hann hefur fengið gefins í gegnum árin. Reykir ýmist hass eða pot 5 sinnum á dag og framleiðir fyrir eigin notkun. Ég var t.d. með ca. 20 baby marijúana plöntur inn í herberginu mínu. Og draumur hans er að vera bara upp í fjöllum með geitur og fleira og lifa bara svona sjálfsþurfarbúskap... það er það sem hann stefnir að þegar börnin eru farin að heiman. En maðurinn er ekkert smá lifaður. Endalausar lífsreynslusögur. Núna lifir hann á geitaostagerð og verður að segjast er mjög fær í þeirri grein. Ekki verri en ostarnir frá kusunum.
Þau voru öll endalaust nice. Og hef ég bara gott að segja um þessa fjölskyldu. Gáfu mér fullt af góðri reynslu og upplifelsi sem gleymist seint. Ljúfar stundir.
Geitur eru ekkert smá skemmtilegar og svo rosalega ólíkar kindum. Miklu meira en maður heldur. Í fyrsta lagi þá getur Michele kallað á hver og eina með nafni og þær koma til hans. Við eyddum mestum deginum í að mjólka þær og fara með þær upp í fjall á beit í fleirri fleirri tíma í senn. Og kusa með. Hún var ekkert smá fyndin. Stökk á milli steina og hljóp upp og niður brekkur og smeygði sér milli trjáa og greina sem ósjaldan brotnuðu þar sem hún var ekkert lítil kú. Gat samt verið stórhættuleg þegar hún kom askvaðandi niður brekkuna og stundum þurfti maður að stökkva bak við tré þar sem hún gleymdi stundum hvað hún væri stór og átti það til að reka bumbuna í mann. Ég fékk af fljúga 3 sinnum við slíkar æfingar.
Aðstæður á heimilinu voru aðeins frumstæðari en maður er vanur að venjast. Fyrst kom í ljós að það væri ekkert internet, sem er ekkert til að tala um... svo kom í ljós að það var ekkert sjónvarp, sem var líka fínt, slæmur ávani hjá mér að glápa alltaf á imbann.... svo kom í ljós að það var engin kynding í herberginu mínu, sem var efitt þar sem fyrstu nætur var ansi kalt en 1 flís peysa, 1 sæng og 2 teppi seinna var það í lagi... svo kom í ljós að það var ekkert heitt vatn! Hvað gerir maður þá?! Jú hægt var að hita vatn með eldivið og fara svo í bað, þannig að á ca. 4 daga fresti var stór baðdagur og vatn hitað og allir fara í bað(þó ekki á sama tíma). Þetta var ágætt þar sem allir voru á sama róli hvað hreinlæti varðar. En verra þegar það var baðdagur 2 dögum áður en ég lagði af stað heim og fór sem sagt ekki í bað áður en ég lagði af stað heim til DK, 2 lestarferðir og 2 flugferðir. Lát vera að vera skítug en að vera búin að vera innan um geitur í 2 daga.... greyið fólkið sem lennti við hliðina á mér. Ég fann nokkrum sinnum netta geitalykt gjósa upp á leiðinni. En ég gekk á milli Duty Free búða á flugvöllunum og fékk mér smá Angel Innocent ilmvatn til að dempa geitalyktina.

Skítug, sveitt og þreytt.... sem sagt hálfógeðsleg lennti ég í gærkvöldi á Kastrup eftir 13 tíma ferðalag. Heiða og Eiki tóku á móti mér og sem betur fer afneituðu mér ekki þegar þau sáu mig. Heiða, þessi elska, splæsti svo í vel þeginn taxa á Solbakkann.
Var voða fínt að koma heim og tala ekki um að fara í mína sturtu, í mitt rúm með mína sæng, minn kodda og með minn mann. Held samt að það hefði verið fínt að vera lengur í Piemonte og ég sá soldið eftir því að hafa keypt flugmiða svona snemma, en hann var keyptur þegar ég var í Toscana og var frekar ósátt. En er sátt.

Sem sagt í stuttu máli sagt: Toscana var fín. Reyndi á. Vanezia....mmmm. Piemonte var æði æði æði. Kem þangað pottþétt aftur í heimsókn.
Frábær lífsreynsla og eitthvað sem ég þurfti á að halda. Ciao