2004
Árið byrjaði erfiðlega fyrir mig. Ég var ein heima allan janúar mánuð að rembast við lærdóm. Var ég á þessum tíma að glíma við mikið þunglyndi og kvíða og var búin að vera að glíma við það í allt of langan tíma. Á sama tíma ákvað ég að ég yrði að taka mér pásu frá skólanum og vinna í að koma mér upp úr þunglyndinu. Ég ákvað að drífa mig til Ítalíu og vinna á bóndabæjum. Fannst mér þetta góð leið til að breyta um umhverfi og takast á við sjálfa mig með sjálfri mér og engum öðrum. Man að margir héldu að ástæða ferðar minnar væri út af vandamálum milli mín og Eika, en það var langt í frá.
Febrúar og mars liðu og ég vann mikið á þeim tíma og var að undirbúa mig fyrir ferðina. Dvaldi ég í tæpa 2 mánuði á Ítalíu á tveim bóndabæjum. Var þessi reynsla mjög spennandi en á sama tíma mjög erfið. En ég kom heim endurnærð og kom í ljós að þetta var góður startpallur fyrir mig.
Sumarið byrjaði eða byrjaði ekki þar sem þetta var versta sumar í Danmörku í 35 ár eða eitthvað álíka. Ég kíkti heim í júní og ágúst sem var ljúft eins og alltaf og svo fengum við Eiki fullt af gestum í heimsókn. Roskilde var mjög eftirminnileg.
Svo í enda júlí gerðist eitthvað. Ég fékk nóg. Hætti að drekka, hætti að borða nammi ásamt öllu öðru með sykri. Borðaði hollt og fullt af grænmeti. Enda rúm 20 kíló farin síðan í byrjun árs.
Haustið byrjaði og skólinn lagðist vel í mig. Þunglyndi og kvíði löngu horfin. Í október fjölgaði svo á heimilinu og Alísa kisuskvísa flutti inn og hefur lífgað upp á heimilið. Algjör karakter.
Svo 9. nóvember pissaði ég á prik. Var það gert með hálfum hug þar sem okkur grunaði ekki að það væri möguleiki á tveimur línum... en tvær línur voru það. Í sjokki hjólaði ég út í apótek og keypti tvö próf í viðbót og jújú tvær línur á þeim líka. Hmm.
Ja hérna hér. Við erum að verða foreldrar... erfinginn á leiðinni. Verð að viðurkenna það var erfitt að halda þessu leyndu, sérstaklega fyrir mömmu og pabba. En það var þess virði.
Botnlanginn stríddi mér aðeins fyrir jólin. Verð að viðurkenna að ég hefði eflaust harkað þetta af mér í einhvern tíma ef ég hefði ekki verið ólétt. Vorum soldið smeik að þetta væri tengt óléttunni. En sem betur fer var það ekki málið. En við tóku áhyggjur varðandi svæfingu og lyfjagjöf. En allt fór vel enda fékk ég lágmark af verkjalyfjum og engin bólgueyðandi... sem kannski gerði batann erfiðari en gengur og gerist en ekkert til að kvarta yfir enda stóð Eiki sig eins og hetja í hjúkrunarhlutverkinu.
Við Eiki áttum mjög hugguleg jól ásamt kisu litlu. Borðuðum góðan mat og fengum flottar gjafir. Hápunkturinn var þó að hringja í mömmur og pabbar og segja þeim að þau væru að verða ömmur og afar. Og systur að þær væru að verða frænkur.
Í heild var árið 2004 gott ár. Og eitthvað segir mér að árið 2005 verði enn betra.
Love
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli