miðvikudagur, september 01, 2004

Að Sakna Íslands

Skrýtið hvernig hlutirnir eru þegar maður þeyttist um á milli tveggja landa. Við Eiki erum vön að eyða öllum okkar aukapening og aukatíma í flugfar "heim" til Íslands. Eftir tvo daga á klakanum er eins og maður hafi aldrei farið. Svo tveim vikum seinna getur maður varla beðið eftir að komast aftur "heim" til Køben. Og sama gerist tveim dögum seinna... það er eins og maður hafi aldrei farið til Íslands.

Hef oft setið með sjálfri mér og hugsað til Íslands og hvað og hverja og hvers ég sakna mest. Margt kemur upp í hugann. Eitt er útsýnið. Elska að sjá glitta í Snæfellsjökulinn og Esjuna þegar ég kem keyrandi frá Leifstöð. Svo er alltaf gaman vera með góðan hitting með vinunum og enda á NonnaBátum klukkan 5 um morgun til að bíða í klukkutíma biðröð. Fleira? Bláa Lónið er einn af mínum uppáhaldsstöðum. Fara aðeins út á landið og sjá Hekluna. Mat í Vesturbergið. Taka einn hring í Hagkaup þar sem matvöruverslanir í Køben eru crap. Fara á BæjarinsBestu. Bíltúr niður á höfn. Og svona mætti lengi telja. En eitt stendur upp úr og hefur alltaf gert í öllum mínum heimferðum til Íslands og það er Fífuhvammur 17. Það er ekkert betra en laugar- eða sunnudagseftirmiðdagur í Fífuhvammi 17. Fjölskyldan að berjast um sófaplássið, vafin inn í flísteppin, flest öll enn í náttbuxunum og Enski boltinn í sjónvarpinu. Mamma að stússast í kringum okkur og sest sjaldan niður, því hún þarf alltaf að vera að gera eitthvað... að hún heldur. Afi læðist upp stigann öðru hvoru og tillir sér í stólinn sinn. Ýmsar umræður koma upp og miklar rökræður fara í gang. Og allan daginn er fólk að koma og fara.

Engin ummæli: